fimmtudagur, janúar 31, 2008

Nostalgía

Fengum okkur ís með perum úr dós í eftirmat í dag. Það minnir mig sko á gamla tíma. Við fengum oftar en ekki ís með perum úr dós og súkkulaði ísingu í eftirrétt á sunnudöum þegar ég var yngri. Ég bjó meira að segja (alveg óvart) til hálfgerða súkkulaðiísingu á ísinn svo þetta var bara nánast alveg eins.
Svolítið stress blandað við alveg heilmikið kæruleysi hér þar sem ég er að fara að halda kynningu í fyrramálið á tilrauninni (með svínshjartað) sem við höfum verið í 2 síðustu vikur. ég er búin að vera súpersamviskusöm í tilraununum, ótrúlega dugleg í öllum útreikningum, skil algjörlega allt en er svo ótrúlega löt við að undirbúa mig fyrir kynninguna. Úff, verður bara að reddast því ég er sko farin að sofa.
Svo þegar ég er búin að kynna verkefnið er komið óendanlega langþráð helgarfrí! Ég hlakka til að þrífa og hanga fyrir framan sjónvarpið og fara að versla í matinn og elda góðan mat. jamm, það hefur verið mikið að gera síðustu vikur...

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Bara til staðfestingar fyrri færslu

þá var ég að fá út úr prófinu mínu í örveru- og ónæmisfræði (kallar maður ekki immunolgy ónæmisfræði?) og var með 89 stig af 83 sem gefur u.þ.b. 8,3 sem þýðir sko bara VG eða val godkänt eða vel staðist :)
Þess ber að geta að þetta er mín fyrsta VG einkunn en alls ekki sú síðasta!!

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Ég er alveg hreint óhótrúlega klár!

...þó ég segi sjálf frá (hógværð mæ es!)
Ég og labbfélagi minn (fyrir ykkur "minna kláru"; sú sem ég geri tilraunir með) kláruðum tilraunina í dag, degi á undan áætlun. Ekki nóg með það, heldur er ég orðin prívatkennari einnar stelpu í kúrsinum sem kemur miklu frekar til mín með spurningar en kennarans. Gæti verið að ég sé að nálgast ofmetnað en ég er alveg tilbúin að taka sénsinn, ekkert smá gaman að vera svona óendanlega klár annað slagið ;)

sunnudagur, janúar 27, 2008

Mer er kalt

Jaeja, ta er madur buinn ad vera i höfudborginni i 2 daga og hafa tad bara svona lika ljomandi fint :)
Finasta ibud hja Sigrunu og Erling, helsti gallinn er stadsetningin, svona lika langt fra Lundi ;) og svo er svolitid kalt nidri i bae hja teim.
Ljomandi fint annars.

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Svínshjörtu, lifur, spínat, mödlur og ger

Hvað á þetta allt saman sameiginlegt?
Jú, í dag vorum við að mixxa og merja þetta niður í litlar einingar og byrja að einangra ákveðin prótein.
Þetta leit hálfeinkennilega í morgun þegar hver hópur fyrir sig var með venjulegan heimilismixer að mixa niður e-ð matarkyns.
ég og félagi minn ætlum að hreinsa hexokinas úr svínshjörtum og gengur bara svona líka ljómandi vel! Erum búin að hómógenisera, athuga hvort það sé virkni í gumsinu okkar, ákvarða heildar próteinmagnið og athuga hvort próteinið okkar þolir saltið sem við ætlum að nota til að ná próteininu okkar úr gumsinu.
ótrúlega gaman að fá að ráða sjálfur (ekki einu sinni innan skynsamlegra marka, ef við erum út í móa og spyrjum ekki ráða fáum við sko bara alveg að vera úti í móa, ef við spyrjum ráða fáum við nú samt alltaf hjálo ;))
Þrátt fyrir skemmtilegheit er þetta ansi krefjandi og þar af leiðandi er heilinn minn ansi freðin svo ég held ég láti þetta nú bara gott heita

ps: ég flýg til Sigrúnar á morgun eftir tilraunina! Flýg kl 17:45 og tilrauninni líkur kl 17:00... það tekur 45 mín að keyra út á völl, ekkert mál fyrir Jón Pál ;)

mánudagur, janúar 21, 2008

rómó

Það er svo ferlega rómó lýsingin inni á gestaklósetti (já, maður þarf sko 2 klósett í 3 herbergja íbúð... alla vega í Svíþjóð) hjá okkur núna, 3 perur af 4 farnar. Einhvern veginn efast ég um að við gerum e-ð í því fyrr en sú fjórða ver :Þ
Það var ekki fallegt námskeiðsmatið sem ég gerði fyrir kúrsinn sem ég var í! En ég meinti sko hvert einasta orð, þetta var verst skipulagði kúrs sem ég hef tekið þátt í.
Var að byrja í nýjum kúrsi í dag og var örlítið stressuð í nafnakallinu því það var svo ótrúlega mikið af fólki þar sem ég nennti ómögulega að vera með í kúrsi. Sem betur fer voru þetta 4 mismunandi kúrsar og leiðindagaurarnir voru að sjálfsögðu að fara í leiðindakúrsana svo þetta slapp ;)
Líst bara ágætlega á kúrsinn og þá sem eru með mér í honum. Búin að ná mér í labb félaga og allt :)

sunnudagur, janúar 20, 2008

Lýsi

Það hringdi sölumaður í fyrradag.
Eins og venjulega hringir hann um miðjan dag og spyr eftir Jonasi en gatt sætt sig við að tala við mig í staðinn og þar sem
ég hef ekkert verið heima á daginn að undanförnu og þar af leiðandi losnað við sölumenn þá nennti ég að hlusta á hana í þetta skipti ;)
Hún var þá að spyrja mig hvot ég hefði heyrt talað um ómega-3. Hvort ég hafði en ekki tókst henni þá að selja mér ársbyrgðir af hylkjum með þessum nýjasta lífselexír þar sem ég tilkynnti henni stolt að ég ætti sko íslenska fiskalifurolíu í ísskápnum!

föstudagur, janúar 18, 2008

Búin

og gekk bara ágætlega, hefði samt alveg mátt ganga betur því ég held ég sé alveg á mörkunum með að fá VG, bölvaðir þurftu að hafa mörkin við 80% en ekki 75%.
Prófið var alveg nákvæmlega eins og kúrsinn, algjörlega út í hött!
Reyndar var prófið sjálft næstum því nákvæmlega eins og ég bjóst við (enda fór kennarinn í gengum prófið í síðasta tíma fyrir próf, nánast lið fyrir lið meira að segja með prófið fyrir framan sig).
Fyrst átti prófið að vera frá 9-12 en því var breytt í 8-13 (með alla vega 2 vikna fyrirvara svo ekki er hægt að kvarta yfir því!). Í síðasta tíma fyrir próf sagði hann hins vegar að við mættum bara alveg ráða hvenær við kæmum í prófið, ef við gætum ekki hugsað kl þá bara koma kl 9, ekkert mál! Það var heldur ekki svo nojið hversu lengi við sætum í prófinu, ef við værum ekki búin kl 13 þá bara hættum við þegar við værum búin. Ferlega næs bara ha. Heyrðu, svo mæti ég í prófið kl 8 stundvíslega og þá segir kennarinn að við getum sótt prófið á borðið þarna en hann þyrfti að fara til læknis (var með e-a augnsýkingu). Sagði líka að við þyrftum nú ekki að sitja svona dreift, gætum nú alveg setið hliðina á hvort öðru (?!). Svo fór hann og skildi okkur ein eftir með símanúmerið hans á töflunni! Kom reyndar klukkutíma seinna en þar sem engin hafði spurningar fór hann bara aftur. Næs.
Ég hlýt bara að vera orðin svona hræðilega sænsk en mér fannst þetta alveg fáránlegt og hefði sko bara viljað hafa þetta stíft með prófvörðum og maður fái ekki að taka prófið ef maður kemur meira en 45 mín. of seint og að sjálfsögðu að maður þyrfti að sýna skilríki og allan þann pakka.
Annars er ég andlaus, ekki þreytt samt og ekkert spennufall... ætla bara samt að hanga í tölvunni og horfa á sjónvarpið það sem eftir lifir dags!

Guðrún

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Það er e-ð bogið við þetta

Klukkan er þrjú degi fyrir próf, ég er ekkert stressuð, hef engar áhyggjur af því að ég kunni ekki neitt og skilji ekki neitt.
Ég er búin að læra fyrir prófið!!
Þetta er í alvöru í fyrsta skipti á æfinni sem ég hef engan áhuga á aukadegi fyrir undirbúning.
Svosem alltaf hægt að troða fleiri staðreyndum inn í hausinn en næstu klukkutímana ætla ég bara að hanga í tölvunni :)

föstudagur, janúar 11, 2008

Að bjarga heiminum

Ég fæ stundum gífurlega löngun til að bjarga heiminum á einu bretti! Fæ kannski e-a "snilldarhugmynd" yfir skólabókunum og fyrr en varir er ég búin að ýta bókunum til hliðar og er komin langleiðina með að skipuleggja eitthvert stórvirkið. Ég á í erfiðleikum með að sofna um kvöldið fyrir spenningi um kvöldið og get ekki beðið eftir að hrinda verkefninu í framkvæmd daginn eftir. Ákafinn er hins vegar löngu horfin þegar vekjaraklukkan er búin að hringja tvisvar og ég enn að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að komast fram úr rúminu.
Í vetur var ég að lesa tvo kúrsa um algjörlega óskyld efni, annars vegar matvælaframleiðslu og hins vegar örverur. Í báðum tilvikum var komið inn á "vonleysið í Afríku".
Í matvælakúrsinum voru nokkur atriði sem gripu mig: það er til nógur matur í heiminum, hann er bara á vitlausum stöðum. Áburðurinn sem notaður er í dag, á þegar auðuga jörð, á Vesturlöndum til að nú fram nokkurra prósentu aukningu í uppskeru myndu skila margfalt meiri árangri á sendinni jörð í Afríku. Þar hafa bændurnir hins vegar ekki efni á þessum áburði (frekar en erfðabættu korni sem líka myndi auka uppskeruna). Ef þeir gætu eignast þennan áburð myndu þeir hins vegar hafa efni á áburðinum ef þið skiljið...
Í örverukúrsinum voru það að örverurnar sem herja mun meira á Afríku en okkur hér á Vesturlöndum öll þessu snýkjudýr sem valda vanlíðan og dauða. Mörg vandamálin væri auðvelt að uppræta með bættu hreinlæti og ég tala nú ekki um örlitlum sýklalyfjum sem eru sjálfsögð hér á Vesturlöndum.
Að lesa þetta allt á sama tíma fékk mig til að hrinda af stað gríðarstóru verkefni (í huganum). Það versta er að ég get ómögulega munað í hverju verkefnið fólst, man bara að ég ætlaði að fá Ólöfu alþjóðaviðskiptafræðing með mér í lið og fá svo allan saumaklúbbinn með okkur í hugmynda vinnu og annað...
ojæja, ég get alla vega huggað mig við það öll þessi meindýr sem herja á Afríkulöndin hafa líklega orðið til þess að ofnæmi er mun óalgengara þar en á Vesturlöndum þar sem aumingjas IgE antikropparnir hafa ekkert betra að gera en að mynda ofnæmi...

Minna en vika í próf

og ég held geðheilsunni... enn um sinn!
Búin að vera eins og fyrirmyndarnemandi síðan eftir jólafrí (þ.e. í rúma viku) og hef hugsað mér að halda því áfram fram að prófi.
Enda held ég mér veiti ekkert af ef ég ætla að ná þessu prófi. [pirr byrjar] Ég tel mig nú alls ekkert treggáfaða, mætti kannski vera samviskusamari stundum en í þetta eina skipti er bara engan vegin hægt að kenna slæmri ástundun um stöðuna hjá mér. Vandamálið er leti og skipulagsleysi og nú, í fyrsta skipti, ekki mín leti eða skipulgasleysi heldur kennarans!
Stundataflan breytis frá degi til dags, við höfum fengið um 70% fyrirletranna sem stóðu á stundaskránni og 2 tilraunir af 8. Og já, dagsetningunum á báðum þessum tilraunum var breytt með minna en viku fyrirvara þannig að ég gat ekki einu sinni gert þær báðar!
Í dag breytti kennarinn próftímanum (ekki svo alvaralegt reyndar er 8-13 í staðin fyrir 9-12 sem þýðir jú bara meiri tími) og ákvað að segja okkur hvað væri til prófs á þriðjudaginn í næstu viku í staðin fyrir í dag, síðasta skóladag.
Og já, við erum með 2 hnausþykkar bækur í þessum kúrsi sem eru báðar mjög lélegar (já, kennarinn viðurkennir það sjálfur) og enga lestraráætlun, engin verkefni og bandvitlaus fyrirheit um fyrirlestra í stundaskránni. Stuð að undirbúa sig fyrir próf ha?
Nei, hann fær ekki fallega umsögn frá mér kennarinn. [pirr endar]

Annars segi ég nú bara allt gott, ég og Jonas tökum gymmið með trompi svona í byrjun árs, óskandi að það endist í meira en 2 vikur :Þ

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Svona í tilefni fyrri pósts af því ég er svo rammpólitísk eða þannig..

Ég bara get hreinlega ekki orða bundist! Ég lofa lofa lofa að skrifa ekki fleiri svona blogg alla vega næsta mánuðinn.
Rakst s.s. inn á þetta blogg í gær svosem ekkert í fyrsta skipti og ótrúlegt en satt þá er ég bara ekki alveg sammála.
Hann er s.s. að tala enn eina ferðina um "alla" þessa hræðilegu innflytjendur á Íslandi sem gera ekki annað en að stela, svíkja og sníkja af kerfinu (ehe, kannski pínu skreytt hjá mér) og er það heilbrigðiskerfið í þetta skipti. Honum finnst s.s. ekki sjálfsagt að útlendingar fái sömu þjónustu og Íslendingar frá heilbrigðiskerfinu enda eru þeir ekki búnir að vera að borga skatta í mörg ár til að byggja upp kerfið. Og þar sem þeir útlendingar sem á annað borð borga skatta eru með svo lág laun, þá duga laun þeirra nú ekki langt til þess að halda heilbrigðiskerfinu uppi. Jamm, þá fékk ég einmitt þessa snilldar hugmynd að meina bara eldri borgurum aðgang að íslenska heilbrigðiskerfinu, enda borga þeir nánast enga skatta og eru þess vegna ekkert nema byrði eða hvað? Félagi var nú ekki alls kostar sáttur við þennan hroka í mér (greinilegt að írónía kemst ekki til skila á netinu) enda er þetta fólk búið að byggja upp landið og þar með talið heilbrigðiskerfið.
Aha! Byggja upp landið. Hvað hafa einmitt þessir útlendingar verið að gera? Jú, byggja upp landið. Byggja virkjanir, byggja hús og þeir sem ekki hafa verið að byggja upp landið hafa verið að halda heilbrigðiskerfinu gangandi sem sjúkraliðar og ummönnunaraðilar!
Ég held að allt of margir Íslendingar séu of uppteknir af sínum litla nafla. Hvað með okkur Íslendinga sem búum erlendis?
Nú bý ég í Svíþjóð og borga ekki krónu fyrir að vera í háskólanámi hér. Ég fæ alla þá læknisþjónustu sem ég þarf (þó heilbrigðiskerfið hérna sé alveg fáránlega þunglamalegt þá er það alla vega jafnt fyrir alla) og enn ódýrara en heima. Ég fæ meira að segja 2000 SEK á mánuði fyrir það eitt að vera í háskóla og gæti fengið lán upp á 6000 SEK í viðbót ef ég vildi frá sænska LÍN. Þrátt fyrir þetta hef ég ekki borgað krónu í skatt í þessu landi, er meira að segja með skattalega heimilisfesti á Íslandi og engin finnur að þessu eða hvað?
Þá gætu sumir sagt: "en þetta er jú innan Norðurlandanna". Eigum við þá að ákveða það landfræðilega hvaða þjóðir eiga að fá að nota íslenska heilbrigðisþjónustu, eða enn betra, veita þeim þjónustu sem koma frá löndum sem okkur þætti spennandi að búa í?
Sumir gætu reynt að malda enn í móinn og segja: "fólk frá löndum sem er ekki með sambærilega þjónustu ætti ekki að fá þá þjónustu á Íslandi". Úff. Er ekki allt í lagi að Ísland fari að gefa aðeins til baka? Það er ekkert sjálfgefið að þiggja bara endalaust og hjálpa bara þeim sem geta hjálpað sér sjálfir! Ísland er eitt af allra ríkustu þjóðum heims og ég held það færi nú ekkert alveg með okkur að aðstoða aðra svona annað slagið og hana nú.

Er ég ekki sniðug?

Tjah, mér finnst það alla vega... spurning hvað mömmu finnst ;)

Guðrún hrokafulla ;)