þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Nýja hjólið mitt kom í dag :)

Eftir nokkura daga samskiptaörðuleika við skánska vörubílstjóra fékk ég fína nýja hjólið mitt innpakkað í morgun :) Ég var hins vegar ekki spenntari en svo að ég skellti því niður í kjallar í staðin fyrir að pakka því upp og hélt áfram með skýrsluna úr tilrauninni í gær (með einmitt besta vini mínum... vá, það er nú eiginlega bara saga út af fyrir sig... segi á eftir).
Í gær mældi ég vatnsinnihald í hveiti, metanóli og sjampói með Karl Ficher aðferðinni. Félagi minn mætti tímanlega eins og ég og við fórum yfir nokkra punkta og þetta lagðist bara vel í mig. Tilraunin gekk bara ágætlega þrátt fyrir að við höfum nú gert nokkra hluta oftar en einu sinni. Leiðbeinandinn okkar er pólsk stelpa sem nær mér varla upp að öxl og er einstaklega feimin. Minn maður sjarmaði hana upp úr skónum með sínum einfaldleika og þar með var hann svosem búin að gera nóg að mínu mati. Við vorum búin um eittleytið með tilraunina og undum okkur í útreikninga eftir hádegismat. Minn maður kemur eftir hádegismat og segist hafa misst aðra framtönnina! Hann var s.s. með gerfiframtönn sem gaf sig í hádeginu og okkur á milli bætti það ekki upp hans talörðuleika sem voru nógir fyrir. Við sátum svo í yfir 4 klst við að klára útreikningana... þ.e. við sátumí 4 klukkutíma, ég að reyna að hugsa skýrt, hárreita mig og útskýra fyrir félaga mínum hvernig ætti að gera þetta á meðan hann spurði asnalegra spurninga eins og "10% af hve miklu?" og efaðist um allt sem ég sagði. Fyrir rest small þetta og við skiptum með okkur afgangnum af skýrslunni og ég fór hás heim (já, ég gæti hafa hækkað málrómin einstaka sinnum...)
Ég var svo voða dugleg í dag, fór í sjúkraþjálfun og ræktina, sótti um nokkur störf og gerði minn hluta skýrslunnar. Áður en ég fór á hljómsveitaræfingu meilaði ég svo félaga mínum og sendi honum minn hluta og spurði hvernig honum gengi. Fékk svo svar núna í kvöld þar sem hann sagðist bara hafa verið of þreyttur í dag til að gera neitt!?! Ég varð ekkert smá svekkt, ekki bara yfir því að hann væri ekki búin að gera neitt (bjóst alveg eins við að þufa að gera þetta sjálf) heldur aðallega yfir því hvað hann skrifaði vitlaust! Hann skrifar s.s. miklu vitlausari sænsku en ég, hann bara hlýtur að vera lesblindur. Þessi skýrsla er reyndar á ensku (vá, hvað það ætlar að reynast mér erfitt að skrifa þetta á ensku, það kemur bara allt út úr mér á sænsku)
en ég hlakka sko ekki til að þurfa að rífast í honum um stafsetningu þegar við skrifum á sænsku...
Jæja, þá er ég búin með hneyksl dagsins

Guðrún

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

úbs... Hljómar ekki eins og mjög skemmtilegt samstarf... En þú ert rosa dugleg :) Allir þessir klukkutímar af efnafræði og rækt og læti!

15 febrúar, 2007 19:58  

Skrifa ummæli

<< Home