föstudagur, september 26, 2008

Ekki verlsa hjá Lilla Valvet í Lundi

Í dag þegar ég var að læra á aðalháskólabókasafninu í Lundi ákvað ég að prófa að fara á Lilla Valvet í hádegismat. Lilla Valvet er s.s. falafellbúlla rétt hjá bókasafninu og ég hef aldrei farið þangað áður.
Það var að sjálfsögðu fullt út úr dyrum eins og við var að búast svona í hádeginu en röðin gekk hratt. Ég var búin að þylja pöntunina oft í huganum svo ég yrði nú örugglega nógu snögg og segði enga vitleysu svo allt gengi smurt fyrir sig. Svo kemst ég að og segi eins og ég hafði æft: "einn falafell með fetaosti án lauks". Mér fannst viðmótið ansi furðulegt þar sem hann var ekki einu sinni búin að heyra alla pöntunina mína þegar hann var byrjaður að taka pöntun hjá næsta svo mér fannst réttara að árétta að ég vildi ekki lauk á falafellinn. Han var að sjálfsögðu eldsnöggur að þessu öllu saman og ég var varla búin að blikka augunum þegar ég var kominn með falafellinn minn í höndina. En hann hafði aldrei spurt mig um hvernig sósu ég vildi? Mér fannst það frekar einkennilegt þar sem allir aðrir höfðu fengið að velja sósu svo ég spyr hann hvort hann hafi sett e-a sósu. Hann varð mjög hneykslaður og sagðist hafa sett milda sósu (sem var nb lygi, hann hafði ekki sett neina sósu) en ég sagði honum að hann hafði aldrei boðið mér sósu og ég vildi fá bland af öllum. Það mætti halda að ég hefði verið að biðja hann um að búa til sérblandaða sósu frá grunni handa mér, svo mikið mál var þetta. Svo horfði ég á hann sletta smá hvítlauskssósu á og ekkert meira. Mér fannst ég vera búin að vera með nóg vesen svo ég lét það duga en var engu að síður mjög óánægð með viðmótið (svosem ekkert í fyrsta skipti í Svíþjóð). Ég labbað út og byrjaði að gæða mér á falafelnum sem var nú bara nokkuð góður... komst nú fljótt að því að hann hafði gleymt að setja fetaost á (en hann rukkaði mig sko klárlega um hann!). Ég ákvað nú samt að borða aðeins meira og sjá hvort hann kæmi kannski þegar neðar drægi. Það var engin fetaostur neðar en nóg af lauk hins vegar. Mjög pirrandi en kom mér nú ekki mikið á óvart miðað við viðmótið. Það hvarflaði svosem að mér að fara og kvarta og akkúrat þegar ég var að hugsa þetta leit á á falafellinn minn og sá svart stutt hár standa út úr einni bollunni!!! Þá fékk meira að segja ég nóg og fór til baka. Ég hafði aftur nógan tíma í röðinni til að æfa ræðuna mína og þegar kom að mér bunaði ég út úr mér eins hátt og skírt og ég gat að ég hefði borgað fyrir falafel með fetaosti og án lauks og fengið einn án fetaosts með lauk og þar að auki fundið hár og vildi nú skila matnum og fá penigninn til baka. Gaurinn entist nú ekki í að hlusta á þessa "löngu útskýringu" og var löngu horfinn áður en ég var búin að klára en ég endurtók þegar hann var hálfnaður að búa til nýjan falafel að ég vildi fá peningana til baka og ekkert annað. Hann nánast henti svo í mig peningunum og muldraði e-ð í mjög svo pirruðum tón sem hefði verið hægt að skilja sem afsakið.
Ég veit ekki hvað ykkur finnst en þetta finnst mér alla vega vera "þjónusta" á lægsta mögulega plani og hef ekki hugsað mér að stiga fæti þangað inn aftur.

Guðrún-neytandi

1 Comments:

Blogger Sigrún Helga Lund said...

Góð Guðrún! Reyndu að halda því fram að þú sért ekki pólitísk ;)

26 september, 2008 16:49  

Skrifa ummæli

<< Home